Færsluflokkur: Bloggar
10.2.2011 | 19:38
Janúarblogg
Jólagleðin búin. Skráður jóla-gjörningur: Jólaheimsóknir, jólamessa, jólaball á Melum, jólaspil og jólasöngur.
Nú er komið nýtt ár og þá er að strengja áramótaheitin, að skrifa á bloggið einu sinni í mánuði, þetta er heit er síðan í fyrra en aldrei of seint að byrja. Nú eru heimasæturnar okkar farnar til höfuðborgarinnar, önnur í Kvennó en hin HÍ. Við erum búin að hafa það mjög skemmtilegt, spila, synda, gefa, skauta, saga, syngja, heimsækja góða vini og njóta hvers annars.
Það er ýmislegt sem á daga mína hefur drifið, fara til gegninga með bónda mínum, hleypa til, taka niður jólaskrautið, spjalla við Skúla Björn afmælisdreng, undirbúa mig fyrir skapandi skrif hjá Vigdísi Grímsdóttur.
Vera afleysinga-kokkur í Finnbogastaðaskóla, það var æði að fara í skólann og elda buffalo og ísjakasúpu, frábært! Svo fórum við krakkarnir að ,,reisa horgemling" í hádeginu þau voru ansi góð í því.
Núna eru sveitungar mínir margir farnir að sjá sólina með tilheyrandi pönnukökubakstri en ég þarf að fara upp í miðja Bæjargjá til að sjá sól. Ég slepp við að þurrka af miklu lengur en hinir. Það var mjög gott Pálsmessuveður og lítur vel út með veður þetta ár.
Vísan er svona:
Ef heiðbjart er og himinn klár
á helga Pálumessu
mun þá verða mjög gott ár
mark skalt hafa á þessu.
Margrét á Bergistanga startaði saumaklúbbnum þetta árið vegna mikils þrýstings. Vegleg veisla og snætt, spilað, spjallað, spaugað og leikið við litlar snótir. Þá var komið að Melahúsfreyjunni, hún rauk í að halda klúbb, nú átti að klára öll sætindi og fara að hreyfa sig.
Góð mæting, mikið fjör, ekki tekið lagið vegna stefgjalda, flissað þeim mun meira. Þorrablótsferðin á Drangsnes er síðasta fréttin í mánuðum. Það var stöðugt verið að skoða veðurhorfur, bóndinn sagði til um vindinn, metra, hálku og við létum okkur gossa. Hittum fullt af skemmtilegu fólki, góð skemmtiatriði og ekki má gleyma frábærum mat. Nammi namm.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2010 | 21:22
APRÍL
Heimasæturnar fóru í suður á annan í páskum því spáð var vondu veðri, sem gekk eftir. Bændurnir hér á Melum fóru ekki í fjárhúsin, fyrr en eftir hádegið.
Áfram eru bændur á ferðinni á Sögu, nú var Sauðfjárbændahátið sem var frábærlega vel lukkuð. Þar gátu bændur borið saman bækur sínar og húsfreyjurnar auðvitað líka.
Svo kom Gos 1 á Fimmvörðuhálsi sem var bara byrjunin. þá kom Gos II í Eyjafjallajökli, sem er miklu alvalegra mál og er ekki séð fyrir endann á. Og áhrif gossins teygja sig víða og með misjafnlega alvarlegum hætti!
Hér varð að hætta við jarðarberjaeftirréttinn á vorhátíð Finnbogastaðaskóla því innflutningur á þeim lá niðri vegna stopulla flugsamgangna!Þetta eru auðvitað smámunir miðað við það sem fólkið sem býr á þessu fallega og grósku mikla svæði gengur nú í gegnum, sem nú veit ekki hvort það á að fara eða vera.Við sendum öllu þessu fólki vinarkveðjur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2010 | 21:17
MARS
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2010 | 20:54
FEBRÚARBLOGG
Saumaklúbbarnir eru komnir á fulla ferð, þeir eru kjarninn í menningarlífi sveitarinnar yfir vetramánuðina, og eru að svínvirka.
Ég gerðist dagamma Jóhönnu Engilráðar, sem er algjör snillingur. Hún kemur tvo daga í pössun í viku, sem er bæði frábært og gefandi.
Skúli Björn er búinn að koma í sveitina. Fyrst einn og svo skrapp hann suður að ná í Brynju systir sína. Þau eru að læra að lesa hjá okkur og miðar það vel. Ég er líka búin að fara suður að hitta hin barnabörnin þannig að það er nóg að gera hjá okkur. Það var haldið herlegheita Þorrablót. Síðan fékk Mæsa frænka að koma í heimsókn í sveitina. Hún fékk að fara í Finnbogastaðaskóla sem henni fannst mjög skemmtilegt.
Tíðarfarið bauð upp á sól, byl, rok, stillu og snjó bara svo við gætum dustað rykið af skíðunum.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2010 | 15:21
JANÚARBLOGG
Gleðilegt ár, bæði háir og smáir.
Jól og áramót voru heldur daufleg hér á bænum. Skipstjórinn á Fossdal skútunni (móðir húsfreyjunnar á Melum) lést á aðfangadag. Nú strjúkum við hlutunum hennar og lesum minningar hennar sem eru okkur svo dýrmætar. Lífið er ljúft.
Annars er allt þokkalegt að frétta héðan frá Melum. Tíðarfarð hreint ótrúlegt, enginn snjór, enginn ísbjörn, bara allt í góðu.
Áramótin hér í Trékyllisvík voru mjög eftirminnileg, fullt tungl, bjart veður og frábært áramótaskaup. Melagengið skaut upp tertum af öllum stærðum og svo skunduðum við fram í Vík og skálaðum fyrir nýja árinu, hjá nýju ábúendunum á prestsetrinu,þeim Elísu,Ingvari,Kára og Þóreyju. Við komum heim kl ? og þá ákvað önnur heimasætan að fara á skíði, því veðrið var svo dýrðlegt.Síðan yfirgefur allt þetta fólk okkur en..það kemur aftur með vorinu rétt eins og farfuglarnir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2009 | 01:06
Jólablogg
Fréttir 23/12 2009
Lífið hefur gengið sinn vanagang. Við fórum með þetta verkefni á frábæra sýningu sem kallaðist Stefnumót á Ströndum. Sýningin var undir styrkri stjórn Ingibjargar Valgeirsdóttur. Þar vorum við með bás til að kynna ,,Sumardvöl á Melum" og þangað kom margt fólk. Þarna upplifði maður samtakamátt á Ströndum svo um munaði. Við hefðum ekki viljað missa af þessu flotta framtaki.
Síðan tóku við þessi hefðbundnu sveitastörf: smölun - réttir, slátrun, klippingar og tilhleypingar en þess í milli var verið að leita að óskilafé. Síðasta smölun var 16/12 þá var farið á bát yfir í Kamb, þar sem menn settu sig í hættu við að fanga féð.
Kæru vinir! Við sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár!
Takk fyrir góðar viðtökur á árinu sem er að líða og verið ætíð velkomin í sveitina!
Badda
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2009 | 22:04
Frábæru frænkurnar frá Fögrubrekku
Þær Bergrún, Katrín og Auður komu snemma morguns til okkar, foreldrarnir ætluðu að ganga á fjöll í nágrenninu. Byrjað var á því að gefa heimalningunum, Dísu og Mel og gekk það þokkalega. Þá lá leið okkar í fjöruna hér á Melum en þar er margt spennandi að sjá eins og í flestum fjörum. Þeir Róbert og Skúli Björn fengu að fara með út að Nykurklettum þar fundum við ýmislegt skemmtilegt, t.d. hnyðjur, kuðunga, bláskeljar og nefiðukollur sem vöktu sérstaka athygli. Þegar heim var komið var gullið þrifið, þurrkað og flokkað til þess að hægt væri að vinna með það eftir hádegið. Húsmóðirin bauð upp á heimagerð bjúgu og allir tóku vel til matar síns.
Næst lá leiðin út í Hellisvík, Brynja barnabarn fékk að fara með frænkunum þangað og þær leiddu hana til skiptis. Þar var margt að sjá, t.d gömul beitarhús sem frænkunum þóttu merkileg auk hellissins sem víkin dregur nafn sitt af. Við sáum mikið af hræjum sem sennilega tófan hefur verið að draga björg í bú.Þarna gátum við fundið margskonar fjörugull og þyngdist bakpokinn stöðugt. Ég og Bergrún skoðuðum Kistuvog og hún fékk smá frásögn um hvað þarna gerðist en meðan leituðu stelpurnar að berjum. Nú vorum við orðnar svangar því að heima beið okkar snúðadeig sem frænkurnar ætluðu að baka úr. Það gekk mjög vel og ekki gekk síður sá partur að renna þeim niður í kaffitímanum. Kvennaskólapíurnar buðu krökkunum út í eltingaleik eftir kaffið og það mæltist vel fyrir.
Nú var farið að styttast dvöl þeirra hér en síðasta sem gera átti var að gefa Mel og Dísu en þau fundust ekki sama hvað við kölluðum og jörmuðum. Frænkurnar kvöddu eftir góðan dag og fóru heim að Fögrubrekku en Dísa og Melur skiluðu sér rétt fyrir miðnættið. Nokkrum dögum seinna áttu þær leið um og komu við til að gefa heimalningunum og með því kvöddum við þessar frábæru frænkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kátu systkinin Aron, Irsa og Eyrún vöknuðu við jarmið í Dísu Ljósálf og Mel. Systkinin fengu sér morgunverð og fóru svo út að gefa heimalningunum, það gekk barasta vel -- nema að þeim fannst lömbin ansi gráðug.
Síðan fórum við út í Hellisvík sem er fyrir utan Finnbogastaði. Þar fórum við að tína skeljar og fleira dót, við komum heim með fullan bakpoka af allskonar gulli og gersemum.
Snúðabakstur var í dag og við vorum svo heppin að það komu fimm krakkar í heimsókn til að fá að gefa heimalingunum og allir fengu sér mjólk og snúð og svo léku krakkarnir sér. Fyrir kvöldmat fengu systkinin sér göngu í fjöruna hér fyrir neðan bæinn og þeim fannst öldurnar ótrúlega stórar.
Heimasæturnar buðu systkinunum með sér í sund og það var ekkert smá gaman. Þar var mikið fjör, síðan komið seint heim, allir þreyttir eftir viðburðaríkan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2009 | 22:42
Líf og fjör á Melum í Trékyllisvík á Ströndum!
Badda og Björn (fædd 1956) hófu búskap á Melum I 1975 og hafa alið upp fimm börn og eiga þar að auki sex barnabörn sem koma hvenær sem færi gefst í sveitina í heimsókn til afa og ömmu.
Þrjú börn eru uppkomin en eftir eru tvær heimasætur á bænum (18 og 19 ára). Hjónin eru sauðfjárbændur með rúmlega 400 ær á fóðrun og einn hund. Á sumrin eru kindurnar flestar á fjalli en hvert sumar eru nokkrir heimalningar sem fá mjólk úr pela.
Ýmislegt er gert með börnunum og verður næg útivist í boði. Farið verður í gönguferðir, fjöruferðir og í sund. Gefa heimalningum og ærslast í heyinu. Nóg pláss er fyrir ýmsa leiki utandyra sem innan, boltaleiki og feluleiki. Svo verður ábyggilega bakað ofan í mannskapinn. Um mitt sumar stendur heyskapur yfir og mun þá bóndinn fara að heyja á stórri dráttarvél sinni. Sumargestir fá að taka þátt í störfunum á bænum eins og kostur er.Hafið samband í síma 4514015 eða sendið póst í bjf@ismennt.is.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)