Janúarblogg

 

Jólagleðin búin. Skráður jóla-gjörningur: Jólaheimsóknir, jólamessa, jólaball á Melum, jólaspil og jólasöngur.

Nú er komið nýtt ár og þá er að strengja áramótaheitin, að skrifa á bloggið einu sinni í mánuði, þetta er heit er síðan í fyrra en aldrei of seint að byrja. Nú eru heimasæturnar okkar farnar til höfuðborgarinnar, önnur í Kvennó en hin HÍ. Við erum búin að hafa það mjög skemmtilegt, spila, synda, gefa, skauta, saga, syngja, heimsækja góða vini og njóta hvers annars.

Það er ýmislegt sem á daga mína hefur drifið, fara til gegninga með bónda mínum, hleypa til, taka niður jólaskrautið, spjalla við Skúla Björn afmælisdreng, undirbúa mig fyrir skapandi skrif hjá Vigdísi Grímsdóttur.

Vera afleysinga-kokkur í Finnbogastaðaskóla, það var æði að fara í skólann og elda buffalo og ísjakasúpu, frábært! Svo fórum við krakkarnir að ,,reisa horgemling" í hádeginu þau voru ansi góð í því.

Núna eru sveitungar mínir margir farnir að sjá sólina með tilheyrandi pönnukökubakstri en ég þarf að fara upp í miðja Bæjargjá til að sjá sól. Ég slepp við að þurrka af miklu lengur en hinir.  Það var mjög gott Pálsmessuveður og lítur vel út með veður þetta ár.

Vísan er svona:

 

Ef heiðbjart er og himinn klár

á helga Pálumessu

mun þá verða mjög gott ár

mark skalt hafa á þessu.

 

Margrét á Bergistanga startaði saumaklúbbnum þetta árið vegna mikils þrýstings. Vegleg  veisla og snætt, spilað, spjallað, spaugað og leikið við litlar snótir.  Þá var komið að Melahúsfreyjunni, hún rauk í að halda klúbb, nú átti að klára öll sætindi og fara að hreyfa sig.

Góð mæting, mikið fjör, ekki tekið lagið vegna stefgjalda, flissað þeim mun meira. Þorrablótsferðin á Drangsnes er síðasta fréttin í mánuðum. Það var stöðugt verið að skoða veðurhorfur, bóndinn sagði til um vindinn, metra, hálku og við létum okkur gossa. Hittum fullt af skemmtilegu fólki, góð skemmtiatriði og ekki má gleyma frábærum mat. Nammi namm.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband